SÚRDEIG

Til hamingju með nýja súrdeigið þitt. Nú getur þú hafist handa við að baka súrdeigsbrauð og annað gúmmelaði. Súrdeig gengur undir ýmsum nöfnum og er m.a. kallað súr, súrdeigsmóðir, súrdeig og gerill. Hér að neðan eru nokkur góð ráð um hvernig má viðhalda og fóðra súrdeigið.

Að geyma súrinn

  • Súrinn er gott að geyma í glerkrukku með loki eða plastboxi. Gætið þess þó að ílátinu sé ekki lokað alveg svo eitthvað loft komist inn.
  • Ef að þið bakið reglulega (einu sinni eða oftar í viku) þá er best að geyma súrinn á borði þar sem hitastigið er stöðugt. Gætið þess að sólin skíni ekki á krukkuna. Þegar súrinn stendur á borði þá er hann „vakandi“ og þarf að fá að fóðra hann einu sinni til tvisvar á dag.
  • Ef að þið bakið örfáum sinnum í mánuði eða sjaldnar þá er best að geyma súrinn í ísskáp, þá vinnur hann hægar. Það má í raun segja að hann sé sofandi. Þegar súrinn er geymdur í ísskáp þá þarf að gefa honum einu sinni á eins til fjögurra vikna fresti. Mikilvægt er að taka hann út úr ísskápnum einum til þremur dögum áður en þið hyggist baka og fóðra hann hressilega til þess að vekja hann.
    Það er mikilvægt að súrinn fari inn í ísskáp þegar hann er hress. Hann verður s.s. að vera í góðu jafnvægi og vera nýbúinn að fá að borða, svona eins og ungabarn sem á að fara að leggja sig.
  • Það getur myndast brúnn vökvi ofaná súrnum þegar hann stendur inni í ísskáp. Það er alveg eðlilegt. Þetta er gerjunarvökvi og honum má bara hræra saman við súrinn áður en hann er fóðraður. Ef það er mikið af vökva þá hellið þið honum bara af.
  • Það er mjög mikilvægt að súrinn hafi pláss til þess að tvöfalda sig í krukkunni. Þegar að súrinn nærist af hveitinu myndar hann gas sem gerir það að verkum að hann tvöfaldar sig. Þegar næringin er búin byrjar hann að falla aftur.
  • Ef að þið bakið ekki oft þá bætist eðlilega meira í súrinn heldur en er tekið af honum. Þá þarf að hella af honum eða finna sér einhverja góða uppskrift sem krefst þess að maður noti mikið magn af súr.

Að fóðra súrinn

  • Súrinn þarf að fóðra reglulega. Það er gert með því að gefa honum vatn og hveiti. Það hefur reynst best að fóðra súrdeigið með blöndu af heilhveiti og próteinríku hveiti á borð við bláa brauðhveitið frá Kornax eða Manitoba hveiti.
  • Það eru óteljandi aðferðir við að fóðra súrdeigsmóðurina en sú algengasta er að halda eftir litlu magni af henni, t.d. 20 – 40 gr. og fóðra hana svo með 40 gr. af vatni og 40. gr af hveiti.
  • Best er að setja vatnið fyrst og hræra vel, í einar 20 – 30 sekúndur, setja því næst hveitið og hræra vel. Þá blandast allt klabbið betur

Hér er gagnlegt myndand um súrdeig og hvernig má viðhalda því.

Að baka úr súrdeigi

Það er ekki nóg að eiga súrdeig, það þarf líka að baka úr því. Hér eru hlekkir á þrjár mismunandi uppskriftir. Við mælum með að byrja á byrjendabrauðinu.

Í þessu myndbandi má sjá hvernig hnoðlausa byrjendabrauðið er búið til:

Annað gagnlegt efni

FB-hópurinn Súrdeigið
Hér koma íslenskir súrdeigsbakarar saman og skiptast á sigrum og vonbrigðum í súrdegisbakstri, leita raða og monta sig af vel heppnuðu brauði.

BÆKUR

Bakað úr súrdeigi
Fjölbreyttar uppskriftir úr súrdeigi ásamt köflum sem fara yfir hvað gæti hafa farið úrskeiðis. 

Bakað með Elenóru
Fjölbreytt uppskriftabók, m.a. með einum kafla helguðum súrdeigsbakstri

Góður matur – gott líf í takt við árstíðirnar –
Hér er m.a. farið í hvernig á að koma upp súrdeigsmóður og baka súrdeigsbrauð.

Ég elska þig pizza
Uppskriftabók frá þeim sem reka Flatey pizza. Bæði uppskriftir að pizzum og súrdeigsbrauði. 

HEIMASÍÐUR

Breadtopia
Gagnleg síða með fjölbreyttum og einföldum uppskriftum ásamt ýmsym fróðleik

The Perfect Loaf
Síða með mjög fjölbreyttum uppskriftum. Sumar eru nokkuð flóknar 

Nýbakað
Íslensk síða með súrdeigsuppskriftum.

Hanna.is
Uppskriftasíða, m.a. með nokkuð mörgum og fjölbreyttum súrdeigsuppskriftum

Artisan Bryan
Einfaldar og góðar uppskriftir fyrir byrjendur og lengra komna. Þess fyrir utan hefur Bryan sérhæft sig í uppskriftum frá Suður-Ameríku og öðrum löndum svo uppskriftaflóran er spennandi. 

Cathrine Brandt
Ef að þið skiljið dönsku þá er Cathrine Brandt með alveg frábæra uppskriftasíðu með allskonar uppskriftum, bæði með og án súrdeigs. Mæli sérstaklega með rúgbrauðunum.

YouTube

Majó Bakari
Majó er líka með Facebook hóp sem má finna hér.

Bake with Jack